arranged by Ólafur Gaukur Þegar þessi hljómplata er gefin út þá eru tuttugu ár síðan Haukur Morthens söng fyrst inn á hljómplötu og þrjátíu ár frá því að hann kom fyrst fram sem söngvari. Hann söng fyrst á skólaskemmtun, en það var eiginlega ekki fyrr en tveimur árum síðar, að hann fór að syngja reglulega með hljómsveitum. Haukur Morthens hefur haft sönginn að aðalstarfi í rúmlega tuttugu ár og hefur hann sungið í öllum veitinga- og samkomuhúsum Reykjavíkur. Hann hefur sungið á skemmtunum og dansleikjum um allt land og hann hefur sungið í Ameríku og fjölda landa í Evrópu. Tölu verður vart komið á þann fjölda skifta, sem hann hefur komið fram í útvarpinu og í sjónvarpi hefur hann komið fram innanlands sem utan. Frá því að Haukur söng fyrst inn á hljómplötu fyrir tuttugu árum hefur hann sungið fleiri dans- og dægurlög inn á plötur en nokkur annar íslendingur, eða um eitt hundrað lög. Stór hluti þessara laga heyrðist í fyrsta skifti á Íslandi fyrir tilstilli Hauks og hljómplatna hans og er að finna í þessum hópi, mikinn fjölda íslenzkra laga. Hefur meirihluti laga Hauks á plötum komist í hóp vinsælustu dans-og dægurlaga hér á landi. Á sinni fyrstu plötu fyrir SG-hljómplötur syngur Haukur Morthens 24 af sínum kunnari lögum í átta lagasyrpum. Ólafur Gaukur færði lögin í nýtízkulegri búning með útsetningum sínum, auk þess sem hann leikur á gítar og stjórnar hljómsveit þeirri er leikur undir. Eru hljóðfæraleikararnir allir danskir og hafa flestir komið við sögu á eldri plötum Hauks. Hljóðritun fór fram í stereo í stúdíó Albrechtsens í Kaupmannahöfn í febrúar 1974.